Samþykkt félagsins

merki.gifSamþykkt Flugmódelfélags Suðurnesja
Samþykkt á aðalfundi 2008

1. grein – Félagið
Félagið heitir Flugmódelfélag Suðurnesja(hér eftir FMS) og er félagsskapur áhugamanna um flug og smíði flugmódela á Suðurnesjum. Heimili og varnarþing er í Reykjanesbæ.

2. grein – Markmið
• Að efla áhuga á smíði og flugi flugmódela.
• Að efla almenna þekkingu á módelflugi.
• Að halda keppnir í hinum ýmsu greinum módelflugs.
• Að tryggja félagsmenn fyrir hugsanlegu tjóni sem flugmódel kunna að valda samkvæmt skilmálum tryggingaskírteina og í samræmi við lög þar að lútandi.

3. grein – Félagar
Allir áhugamenn um módelflug geta orðið félagar í FMS.
Umsækjandi telst félagi er stjórn félagsins hefur staðfest umsókn hans og hann greitt félagsgjald. Gjaldkeri og formaður hafa umboð stjórnar í þessu efni en þó skal stjórn taka fyrir allar hafnanir.

4. grein – Aðalfundur
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Aðalfund skal halda ár hvert fyrir lok mars. Aðalfund skal boða skriflega(bréf/tölvupóstur/sms) með eins vikna fyrirvara og telst þá lögmætur. Fundarboði skulu fylgja framkomnar tillögur af lagabreytingum. Aðalfundur ákveður félagsgjald. Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa allir skuldlausir félagar. Atkvæði eru óframseljanleg. Kosningar skulu vera skriflegar nema fundurinn samþykki annað.

5. grein – Dagskrá aðalfundar
• Kosning fundarstjóra
• Skýrsla formanns um störf félagsins á liðnu starfsári.
• Reikningar lagðir fram til samþykktar.
• Fjárhagsáætlun og ákvörðun félagsgjalda.
• Skýrslur nefnda.
• Kosning stjórnar og endurskoðenda
• Tillögur og lagabreytingar.
• Önnur mál.

6. grein – Samþykkt mála á aðalfundi
Á aðalfundi þarf einfaldan meirihluta til samþykktar mála. Tillögur um lagabreytingar skal senda stjórn félagsins með ábyrgðarbréfi, eða á annan sannanlegan hátt, minnst 30 dögum fyrir aðalfund. Tillögur um lagabreytingar sem afgreiða skal á aðalfundi skulu fylgja fundarboði aðalfundar. Til samþykktar á lagabreytingum og til sölu á fasteignum þarf þó tvo þriðju hluta atkvæða þeirra sem mættir eru á aðalfundi og skulu fundargerðir undirritaðar af fundarstjóra og formanni.

7. grein – Félagsgjöld
Allir félagsmenn greiða félagsgjald sem ákveðið er af aðalfundi. Þeir einir sem greitt hafa félagsgjald hafa rétt til að nýta sér alla aðstöðu félagsins við Seltjörn. Stjórn FMS getur tilnefnt heiðursfélaga og séu þeir samþykktir skulu þeir undanþegnir félagsgjöldum en njóta annars sömu réttinda og aðrir félagsmenn.

8. grein – Námskeið
Stjórn félagsins hefur heimild til þess að halda námskeið á vegum félagsins.

9. grein – Stjórn
Stjórn félagsins er skipuð fjórum mönnum.
Formaður, gjaldkeri/ritari, vallarstjóri og tveim meðstjórnendum.
Skulu þeir allir sitja stjórnarfundi félagsins.

Aðalfundur kýs formann og meðstjórnendur þau ár sem enda á jafnri tölu, en gjaldkera og vallarstjóra þau ár sem enda á oddatölu. Gjaldkeri skal gegna störfum formanns í forföllum hans.

10. grein – Stjórnarfundir
Stjórnarfundur er löglegur ef þrír stjórnarmenn eru mættir.

11. grein – Skuldbindingar
Stjórn getur skuldbundið félagið ef allir stjórnarmenn rita nafn sitt undir.

12. grein – Tjón vegna módelflugs
Félagið ber ekki ábyrgð á slysum eða tjóni, sem hljótast kunna vegna módelflugs. Félagsmönnum er bent á að skv. skilmálum félagstryggingar mega þeir aldrei viðurkenna rétt sinn til bóta gagnvart 3ja aðila, getur slíkt valdið niðurfellingu tryggingar. Þegar tjón verður skal ávallt vísa beint á tryggingafélag.

13. grein – Boðun félagsfunda
Stjórnin boðar til félagsfundar með dagskrá eftir því sem ástæða þykir til. Skylt er að halda félagsfundi ef tveir stjórnarmenn eða 10 félagsmenn krefjast þess og skal fundurinn boðaður með viku fyrirvara. Félagsfundir geta hnekkt ákvörðun stjórnar.

14. grein – Fjármál
Reikningsárið er frá 1.janúar til 31.desember ár hvert. Ársreikningur skal liggja frammi minnst viku fyrir aðalfund og borinn fram til samþykktar á aðalfundi. Einnig skal á aðalfundi leggja fram sérstakan lista yfir eignir félagsins.

15. grein – Úrsögn og brottvikning
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send félagsstjórn(gjaldkera). Úrsögnin tekur gildi einum mánuði eftir að hún berst stjórninni. Félagar sem ekki hafa greitt árgjöld sín til félagsins í tvö ár eða lengur, skulu strikaðir út af skrá þess. Stjórnin getur vikið félaga úr félaginu, en ákvörðun þeirri er heimilt að áfrýja til næsta aðalfundar. Þeir sem segja sig úr eða er vikið úr félaginu eiga ekki rétt á endurkröfu til greiddra félagsgjalda.

16. grein – Félagsslit
Félaginu verður aðeins slitið á aðalfundi, sem sérstaklega hefur verið boðaður í því skyni og verður a.m.k. helmingur atkvæðisbærra félagsmanna að vera mættur og þrír fjórðu hlutar fundarmanna að samþykkja slit þess. Verði félagsslit ákveðin, skal bæjarstjórn Reykjanesbæjar falin umsjón eigna félagsins, þar til annað félag í sama tilgangi yrði stofnað og ganga eignir þá til hins nýja félags.