Fjórir galvaskir þátttakendur voru mættir til leiks í kvöld, þrír á flugvélum og einn á skuttogara. Niðurstaða kvöldsins eftir að hafa þrætt alla Seltjörnina er að þar sé ekki bröndu að sjá, eins og þetta vídeó gefur reyndar sterklega til kynna! 😉
Flugmennirnir létu þessar aðgerðir þó ekki trufla sig og skemmtu sér konunglega við hinar ýmsu flugkúnstir. Vind tók svo að lægja þegar leið á kvöldið og jókst þá fjörið hjá þeim flugbræðrum.
Steini tók sig svo til og flaug Seamaster af Seltjörn og upp á Arnarvöll með smá aðstoð frá Árna og Lincoln en Örn var einnig ómissandi í dyravarðarhlutverki sínu! Böðvar mætti hress eftir gott hlé frá flotfluginu og Maggi var að sjálfsögðu á sínum stað. Pétri kunnum við svo bestu þakkir fyrir að vera klár á björgunarskipinu.
Það þarf ekki að spyrja að því frekar en fyrri daginn að það er alltaf líf og fjör þegar menn hittast til að skemmta sér á Seltjörn og aldrei að vita nema við skellum öðru góðu kvöldi á með styttri fyrirvara þegar nær dregur sumri.