20 ára afmælisár

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að félagið á 20 ára afmæli á árinu og var tekið vel á því með smá hjálp frá Ali! Í tilefni af afmælinu þá gekk vefurinn í gegnum smá andlitslyftingu en þetta er áttunda útgáfa vefjarins sem nú fer í loftið en nú eru komin rétt rúmlega 14 ár síðan Flugmódelfélag Suðurnesja eignaðist sína fyrstu vefsíðu.

Fyrstu árin var vefurinn keyrður með html síðum sem þýddi að talsverða handavinnu þurfti til að viðhalda vefnum. Um aldamótin fór hann yfir í ASP kóða, síðar meir PHP og um miðjan síðasta áratug yfir í opin vefumsjónarkerfi. Í augnablikinu eru 4353 myndir í myndasafni félagsins, 155 tilkynningar og 22 vefsíður.

Stjórn félagsins vill nota tækifærið og óska félagsmönnum til hamingju með árin 20 en það var þann 9.desember 1992 sem Flugmódelfélag Suðurnesja var formlega stofnað í hinum margrómaða Stapa.