Piper Cub félagsins


Jómfrúarflugið á Piper Cub var flogið laugardaginn 19.júlí í fínasta veðri, sól, heiðskýrt og ca. 12-15 hnútar. Vélin er í skalanum 1:3 eða 33%, það þýðir vænghaf upp á 360 cm og 62cc mótor sér um að draga hana í gegnum loftið.

Glöggir aðilar hafa eflaust rekið augun í það á ljósmyndum að vélin er á amerískum skráningarnúmerum en eins og hjá fullskala bræðrum okkar helgast það af því að vélin er keypt frá BNA og verður því á þessum númerum til að byrja með en von er á breytingum síðar.

Flugið gekk mjög vel en ein suðan í hjólabúnaðinum gaf sig en ekki í flugtaki/lendingu eins og gera hefði mátt ráð fyrir heldur á flugi.

Eftir að hafa farið yfir málið þá hefur rannsóknarnefnd félagsins komist að þeirri niðurstöðu að sparnaður hjá viðhaldarar hjólabúnaðarins hafi valdið óhappinu þar sem ekki hafi verið rétt staðið að verkferlum. Lagt er til að auknu fjármagni verði varið í viðhaldsaðgerðir og varahlutalager.

Vélin á án efa eftir að sóma sér vel á sýningum og öðrum viðburðum á vegum flugmódelfélagsins í framtíðinni.

Hægt er að sjá fleiri myndir af vélinni í myndasafni félagsins.