Afmælisflugkoman gekk ljómandi vel

Afmælisflugkoma FMS tókst ljómandi vel upp um helgina og var mikið fjör og mikið flogið. 20 flugmenn voru skráðir til leiks með 36 flugmódel, 250 pylsur runnu ljúflega niður þökk sé Guðna og Björk sem voru að stússast á grillinu. Ölgerðin styrkti okkur með drykkjarföngum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Ómælt magn af bakkelsi hvarf ofan í gesti en Guðjón og aðallega Björk(já þær eru tvær) áttu heiðurinn af því framtaki. Kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Lauslega talning á flugum kom þeim í þriggja stafa tölu enda ekki annað hægt en að taka vel á því í blíðunni sem var í dag. Löggan leit líka við og náði að mæla Ali á 205 km/klst þegar hann flaug Elan í eigu Ingólfs.

Sigurjón og Hafsteinn komu svo í heimsókn seinni partinn og sýndu samflug á tveim Cub-um. Menn voru sammála um að þetta hafi í einu orði sagt verið FRÁBÆRT!!! Þeir félagar hafa verið að æfa sig eins og sást heldur betur, Rauðu Örvarnar hvað!?

Kvöldinu var svo eytt á Hótel Keflavík þar sem 20 ára hátíðarkvöldverður FMS fór fram en 31 matargestur mætti til leiks. Mikið fjör var við kvöldverðarborðið eins og við mátti búast og tóku menn hraustlega til matar þegar lambalundirnar bárust á borðið. Síðustu gestirnir yfirgáfu svo hótelið rétt fyrir miðnætti.

Þökkum þeim sem komu á flugkomuna kærlega fyrir samveruna!

Hægt er að sjá nokkrar myndir á spjalli Fréttavefsins.